
Hljómplötuútgáfan Geimsteinn hefur sent frá sér plötu sem nefnist Jólaóður og er með þrettán sígildum jólalögum í einstaklega vönduðum búningi.
Rúnar Júlíusson syngur öll lögin og hefur ekki aðeins fengið með sér nokkra af færustu hljóðfæraleikurum landsins, heldur er kórinn Schola cantorum í aðalhlutverki á plötunni. Þórir Baldursson hefur útsett öll lögin og stjórnar hljómsveitinni. Einn af meðlimum kórsins, Benedikt Ingólfsson, stjórnar samsöngnum. Þórir spilar á orgel og hljómborð á plötunni en auk hans spila þeir Guðmundur Pétursson á gítar, Einar Valur Scheving á trommur og Róbert Þórhallsson á bassa. Auglýsingastofan 1, 2 og 3 sá um útlit á umbúðum utan um diskinn og textahefti sem fylgir honum.
Schola cantorum var stofnaður árið 1994 af kantor Hallgrímskirkju, Herði Áskelssyni. Síðan hefur kórinn haldið tónleika í Noregi, Finnlandi, á Ítalíu, Spáni og í Frakklandi þar sem hann sigraði í alþjóðlegri kórakeppni í Piccardy árið 1998.Kórinn hefur gefið út tvær hljómplötur og fengist við allskyns tónlist, allt frá barokkverkum frá sextándu öld og að útgáfu á verkum með Björk og SigurRós. Þar að auki var hann tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2007.
Upptökumenn við gerð þessarar hljómplötu voru Guðmundur Kristinn Jónsson, Aron Þór Arnarson, Júlíus Freyr Guðmundsson og Þórir Baldursson. Hljóðblöndun var í höndum Júlíusar Freys og Þóris en sá síðarnefndi stjórnaði upptökunum sem fóru fram á Upptökuheimili Geimsteins.